Eigendur innistæðna í kýpverskum bönkum munu tapa frá 6,75% - 9,9% af innistæðum sínum. Er það hluti  af 10 milljarða evra, um 1600 milljarða króna, björgun bankakerfis Kýpur. Margir sérfræðingar hafa talið að bankabjörgunun hefði þurft að nema tvöfalt hærri fjárhæð. Tilkynnt var um skattinn í gær en fjallað var um málið á vb.is í morgun .

Þeir sem eiga innan við 16 milljónir króna (100 þús. evrur) greiða 6,75% skatt vegna björgunarinnar. Þeir sem eiga yfir 16 milljónir greiða hins vegar 9,9%. Telja ráðamenn á Kýpur og Evrópusambandsins að skatturinn skili um 5,8 milljörðum evra, um 930 milljörðum króna. Viðskiptablaðinu er ekki kunnugt um að innistæðueigendur hafi áður skaðast beint af björgun banka í Evrópu eða Bandaríkjunum frá því að fjárkreppan hófst árið 2008.

Talað er um að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn muni lána um 1 milljarð evra í björguninni, það sem vantar upp á komi frá Evrópusambandslöndunum.

Bankaáhlaup?

Fréttir hafa borist af því að hraðbankar hafi verið tæmdir á Kýpur yfir helgina. Erfitt er að segja til um hvort raunverulegt bankaáhlaup sé í uppsiglingu á eyjunni fyrr en við opnun banka á þriðjudagsmorgun, en bankar eru lokaðir á morgun vegna frídags.