Agnes Sigurðardóttir og Ólafur Þröstur Ólafsson, eigendur bruggverksmiðjunnar Kalda á Árskógssandi í Eyjafirði, stofnuðu í vikunni fyrirtækið Bjórböðin ehf. Ætlun fyrirtækisins er að byggja bjálkahús skammt frá bjórverksmiðju Kalda sem verður 350 til 400 fermetrar að stærð sem mun bæði innihalda bjórböð og veitingastað.

„Ég prófaði þetta fyrst í Tékklandi árið 2007 og heillaðist rosalega af þessu. Maður liggur í bjórblöndu, þar sem blandað er saman vatni, bjór, humlum og geri, og þetta er ekki bara dekur heldur líka ótrúlega gott fyrir húðina,“ segir Agnes í samtali við Viðskiptablaðið.

Fengu ráðleggingar í Tékklandi

Agnes og Ólafur fóru svo til Tékklands og Slóvakíu í vor og heimsóttu nokkur hús sem halda úti starfsemi sem þessari. „Þetta voru þrjú ólík bjórböð og þar fengum við ýmsar ráðleggingar frá eigendunum sem eiga vonandi eftir að nýtast í okkar rekstri,“ segir hún og bætir við að líklega séu þau fyrst á Norðurlöndunum til að hefja svona rekstur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .