Hjónin Hilmar Hansson og Oddný Magnadóttir hafa selt veiðiverslunina Veiðiflugur. Kaupandinn er félagið Kröfluflugur ehf., sem rekið hefur veiðibúðina Kröflu á Höfðabakka undanfarin ár. Samfara kaupunum verður búðinni á Höfðabakka lokað frá og með 1. mars og ný sameinuð verslun Kröflu og Veiðiflugna rekin á Langholtsvegi 111.

Að Kröfluflugum ehf. standa Stefán Kristjánsson og Sólveig Jóna Ögmundsdóttir, eigendur Veiðibúðarinnar Kröflu og Friðjón Mar Sveinbjörnsson.

Veiðiflugur er meðal annars dreifingaraðili vörumerkjanna Loop, Patagonia, Costa og Guideline. Þórir Grétar Björnsson sem verið hefur verslunarstjóri í Veiðiflugum mun áfram gegna því starfi.

Fyrir rétt um ári síðan greindi Viðskiptablaðið frá því að Hilmar og Oddný hefðu hug á að selja Veiðiflugur. Fyrirtækið byrjaði sem sérhæfð fluguveiðiverslun á netinu árið 2009. Sú starfsemi gekk það vel að ákveðið var að opna verslunina á Langholtsvegi. Kaupverð Veiðiflugna er ekki gefið upp en fyrir ári síðan kom fram á vefsíðu Kontakt fyrirtækjaráðgjafar að verslunin væri með ársveltu upp á 80 milljónir króna.