Svissneska félagið Matorka Holding AG gerir ráð fyrir að á næstu fimm árum muni tekjur fyrirtækisins samanlagt nema 8,4 milljörðum króna. Svissneska félagið á 100% eignarhlut í Matorku ehf. sem í lok febrúar samdi við stjórnvöld um 426 milljóna króna afslátt af sköttum og opinberum gjöldum. Frá árinu 2010 hafa verið stofnuð nokkur félög í kringum fiskeldi og rannsóknir á vegum Matorku.

Eigendur Matorku gera ráð fyrir því að tekjur fyrirtækisins muni nema tæplega 840 milljónum króna á næsta ári. Árið 2017 gerir félagið ráð fyrir tekjum upp á 1.660 milljónir og á árunum 2018 og 2019 gera áætlanir ráð fyrir að tekjurnar verði orðnar 2.830 milljónir króna, hvort ár. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu Íslandsbanka og Matorku Holdings, sem dagsett er í mars. Í kynningunni er engar upplýsingar að finna um fyrirhuguð rekstrargjöld á þessu fimm ára tímabili.

Í kynningunni kemur fram að fjárfestingarkostnaðurinn nemi 11 milljónum dollara eða 1.460 milljónum króna. Eins og Viðskiptablaðið benti fyrst á 12. mars hefur Matorka ehf. gert fjárfestingarsamning við íslensk stjórnvöld vegna áætlana fyrirtækisins um að reisa ríflega 3 þúsund tonna fiskeldi uppi á landi við Grindavík.

Samkvæmt samningnum, sem undirritaður var í lok febrúar, fær fyrirtækið 426 milljóna króna ríkisaðstoð í formi afsláttar af sköttum og opinberum gjöldum. Ívilnanirnar gilda í allt að tíu ár frá því að gjaldskylda myndast hjá fyrirtækinu. Þar að auki hefur Matorka sótt um 50 milljóna króna þjálfunaraðstoð frá ríkinu en aðstoðin er hugsuð til að mennta starfsfólk, sem félagið hyggst ráða.

Í fjárfestakynningunni kemur fram að Matorka Holding óski að lágmarki eftir 6 milljóna dollara hlutafjáraukningu. Aftur á móti kemur ekki fram í kynningunni hversu stór hlutur fæst fyrir þessa fjárhæð. Auk þess að fara í tæplega 800 milljóna króna hlutafjáraukningu stefnir fyrirtækið að því fjármagna afganginn af fjárfestingarkostnaðinum, vegna fiskeldisins við Grindavík, með lánum. Samkvæmt því hyggjast núverandi eigendur því ekki leggja mikið fé í verkefnið.

Eignarhaldið á Matorku er töluvert flókið og stofnuð hafa verið nokkur félög í kringum reksturinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .