Ítalski bankinn Monte dei Paschi hefur gripið til aðgerða sem eiga að auka eigið fé bankans um þrjá milljarða evra. Ráðast á í hlutafjárútboð eftir miðjan maí, að því er fram kemur í breska dagblaðinu Financial Times .

Eignarhaldsfélag bankans greindi frá því í dag að það hafi selt 11% hlut í bankanum til að greiða niður skuldir.

Nokkuð hefur verið fjallað um bága stöðu ítalskra banka upp á síðkastið, ekki síst vegna þess að stjórnir þeirra hafa þurft að bretta upp ermar og auka eigið féð áður en álagspróf evrópska seðlabankans skellur á. Óttast er að falli bankinn á prófinu þurfi ítalska ríkið að koma honum til hjálpar.

Monte dei Paschi er þriðji stærsti banki Ítalíu og stæra stjórnendur og starfsmenn hans sig af því að hann sé sá elsti í heimi.  Bankinn var stofnaður árið 1472 eða 20 árum áður en landkönnuðurinn Kristófer Kólumbus lagði upp í fyrstu ferð sína til Ameríku.