Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur - sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð - hafa nú allir staðfest þá ákvörðun stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 21. júní að taka tilboði Landsbréfa hf. að fjárhæð 8,6 milljarðar króna í skuldabréf í eigu fyrirtækisins.

Skuldabréfið, sem var gefið út af Magma Energy Sweden A/B árið 2009, var hluti greiðslu fyrir hlut OR í HS Orku, sem seldur var eftir að samkeppnisyfirvöld settu eignarhaldi OR í fyrirtækinu skorður. Á bak við bréfið stendur veð í hlutabréfum í HS Orku. Undirbúningur sölu skuldabréfsins hefur staðið frá í ágúst 2012 að stjórn OR fól forstjóra að kanna möguleika á sölu þess.

Í tilkynningu frá OR segir að salan þjóni þeim tilgangi að bæta lausafjárstöðu OR og að draga úr áhættu af því að eiga svo mikla fjármuni í einu óskráðu skuldabréfi.