Lánamál ríkisins birtu markaðsupplýsingar fyrir ágústmánuð í gær. Staða erlendra aðila í ríkisverðbréfum í lok júlímánaðar hefur lítið breyst, en erlendir aðilar eiga um 63% af íslenskum ríkisvíxlum.

Í síðasta mánuði var haldið útboð á sex mánaða ríkisvíxlum. Útboðsfyrirkomulagið var hefðbundið, en þá ræður lægsta samþykkta verð söluverði. Alls bárust fimm gild tilboð að fjárhæð 10.746 milljónir að nafnverði. Tveimur tilboðum var tekið fyrir 1.666 milljónir króna. Samþykkt verð var 99,489 en það samsvarar 1% flötum vöxtum.

Samkvæmt upplýsingum frá aðalmiðlurum, keyptu erlendir aðilar um 97% af því sem selt var, eða fyrir 1.616 milljónir króna. Verðbréfasjóðir keyptu fyrir 50 milljónir króna.