Eigendur Sementsverksmiðjunnar á Akranesi munu samtals afskrifa nokkur hundruð milljónir króna af skuldum verksmiðjunnar til þeirra. Kemur þetta fram í Fréttablaðinu , en samningar þessa efnis voru undirritaðir í gær.

Með þeim eignaðist Akranesbær svokallaðan Sementsverksmiðjureit að mestu leyti, bæði mannvirki og lóðaréttindi, án endurgjalds til Sementsverksmiðjunnar. Samanlagt tekur bærinn við réttindum á lóðum upp á alls um 55.500 fermetra.

Eigendur verksmiðjunnar eru Björgun ehf., Heidelberg á Íslandi, sem er dótturfélag norska sementsframleiðandans HeidelbergCement, Arion banki og Lýsing. Mest þurfa Björgun og Heidelberg að afskrifa en bankarnir afskrifa um eitt hundrað milljónir króna.