Hagnaður Skeljungs í fyrra nam 54,9 milljónum króna. Þetta var tæpum fimm milljónum krónum minni hagnaður en árið á undan. Fram kemur í uppgjöri Skeljungs að velta nam rúmum 32,6 milljörðum króna sem var rúmlega 3% minna en árið 2012.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 1.388 milljónum króna sem var rúmlega 86 milljónum meira en í hittifyrra. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða nam rekstrarhagnaðurinn 773,7 milljónum króna borið saman við 915,6 milljónir árið 2012.

Fram kemur í uppgjörinu að eigendur Skeljungs greiddu sér 125 milljóna króna arð í fyrra vegna afkomunnar ársins á undan. Í desember í fyrra var kominn á skuldbindandi samningur um kaup félaganna SF IV slhf og SF IV GP hf á 100% hlutafjár í Skeljungi. Afhendingin fór fram í janúar á þessu ári. Nú leggur stjórn Skeljungs til að arðurinn verði talvert hærri vegna afkomunnar í fyrra eða sem nemur 550 milljónum króna.