Eigendur Vinnslustöðvarinnar greiddu sér 470 milljónir í arð árið 2010 vegna afkomu fyrirtækisins árið á undan. Þetta jafngildir 67% af hagnaði fyrirtækisins árið 2010 og rétt rúmum helmingi af hagnaði Vinnslustöðvarinnar árið 2009. Þetta kemur fram í ársuppgjöri fyrirtækisins. Tveir hluthafar eiga helming hlutafjár í Vinnslustöðinni. Félagið Stilla útgerð á 25,79% hlut. Félagið er í eigu feðganna Kristjáns Guðmundssonar og útgerðamannsins Guðmundar Kristjánsson, löngum kenndur við Brim. Félagið Seil á svo 24,8%. Félagið er í eigu Haraldar Gíslasonar og Kristínar Gísladóttur, varastjórnarmanni hjá Vinnslustöðinni.

Vinnslustöðin gerir líkt og önnur útvegsfyrirtæki upp í erlendri mynt. Hagnaður fyrirtækisins nam 4,4 milljónir evra árið 2010 samkvæmt síðasta birta ársreikningi. Það jafngildir tæpum 700 milljónum króna á gengi dagsins. Eignir námu 101 milljón evra, 16 milljörðum króna, og nam eigið féð 31,2 milljónum evra, 4,9 milljörðum króna. Þar af nam óráðstafað eigið fé Vinnslustöðvarinnar rúmum 11,6 milljónum evra, jafnvirði rúmlega 1,8 milljarða króna.

Uppgjörið fyrir árið 2011 liggur ekki fyrir. Vinnslustöðin eins og mörg útgerðafyrirtæki í dag gera upp í evrum og eru allar fjárhæðir hér umreiknaðar í krónur þar sem það á við.

Vinnslustöðin greiddi engan arð út vegna afkomu ársins 2008 en þá tapaði fyrirtækið 1,1 milljarði króna. Arðgreiðslur hafa alla jafna numið um helmingi af hagnaði ársins á undan og stundum meira. Engu að síður má ætla að heildararðgreiðslur fyrirtækisins síðastliðinn áratug liggi öðru hvoru megin við þrjá milljarða.

Segja upp 41 starfsmanni og selja skip

Stjórn Vinnslustöðvarinnar greindi frá því í dag að það ætli að segja upp 30 manna áhöfn skipsins Gandí VE eftir að makrílveiðinni lýkur og selja skipið. Bókfært virði skipsins nemur tæpum 6,3 milljónum evra í bókum Vinnslustöðvarinnar í lok árs 2010. Það jafngildir 995 milljónum króna.

Sigurgeir Brynjar
Sigurgeir Brynjar
© BIG (VB MYND/BIG)

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, þekktur sem Binni í Vinnslustöðinni, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í dag ástæðuna fyrir uppsögnunum þá að fyrirhugað veiðigjald verða útgerðinni þungt í skauti nema gripið verði til hagræðingar. Hann taldi gjöldin sem rætt sé um miðað við þau þorskígildi sem fyrirtækið ráði yfir á þessu fiskveiði ári geta numið á bilinu 800 til 900 milljónum króna. Þegar lögin um veiðigjald verði komin að fullu til framkvæmda gæti álagningin numið á milli 1,3 til 1,5 milljörðum króna að óbreyttu.

Frekari hagræðingaraðgerðir hafa verið boðaðar.

Með 2,3 milljónir á mánuði

Binni var sjálfur með 24,9 milljónir króna í laun og hlunnindi árið 2010. Það gera 2,3 milljónir króna í mánaðarlaun. Hann var áður hluthafi í Seilu ásamt þeim Haraldi og Kristínu og nam hlutafjáreign hans samkvæmt ársuppgjörinu tæpum 1,4 milljónum evra, jafnvirði 219 milljóna króna á gengi dagsins.

Skuldsettir eigendur

DV fjallaði um arðgreiðslur eigenda útgerða í síðasta mánuði. Þar kom fram að félögin Stilla útgerð og Seil skulduðu á þriðja milljarð króna. Skuldirnar eru til komnar vegna kaupa á eignarhlutum félaganna í Vinnslustöðinni.

Þá er tekið fram í umfjöllun blaðsins, að í ársreikningi Seilar komi fram að félagið skuldi tæpa 2,6 milljarða króna. Af 460 milljóna króna arði Vinnslustöðvarinnar árið 2010 hafi Seil fengið rúmar 125 milljónir króna. Á sama tíma hafi félagið átt að greiða rúmlega 156 milljónir króna í afborganir af langtímaskuldum sínum í fyrra.

Staðan er svipuð hjá Stillu útgerð. Félagið skuldaði 1,9 milljarða króna í lok árs 2008 samkvæmt síðasta birta ársreikningi og voru 137 milljónir á gjalddaga árið eftir. Miðað við eignarhlut Stillu útgerðar ætti félagið að hafa fengið um 125 milljónir króna í arð frá Vinnslustöðinni upp í afborganir.

DV segir að af þessum tveimur dæmum sjáist að að minnkandi arður til þessara tveggja hluthafa Vinnslustöðvarinnar út af hækkuðu veiðigjaldi gæti aukið erfiðleika þeirra til að standa í skilum við lánardrottna sína vegna lána sem notuð voru til að kaupa hlutabréfin. Svipaða sögu má líka segja um aðra og minni hlutahafa Vinnslustöðvarinnar.