Eftir fyrirhugaða aukningu hlutafjár FL Group, vegna kaupanna á hlut í Straumi Burðarás fjárfestingabanka, verður eigið fé félagsins tæpir 110 milljarðar króna miðað við eigið fé félagsins þann 31. mars síðastliðinn.

Markaðsvirði félagsins verður tæpir 140 milljarðar króna sé tekið mið af lokagengi gærdagsins. Hlutafjáraukningin styrkir þannig eiginfjárhlutfall félagsins verulega og mun aukið afl nýtast félaginu með margvíslegum hætti á komandi misserum.

?Kaupin á svo stórum hlut í Straumi-Burðarás eru í takt við þá stefnu FL Group að vera áhrifafjárfestir í félögum með mikla vaxtarmöguleika. Við hlökkum til samstarfsins við aðra hluthafa í Straumi-Burðarás og sjáum ýmis tækifæri til sóknar, bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi, fyrir þennan öfluga fjárfestingarbanka. FL Group kemur víða við í fjárfestingum sínum og kappkostar á öllum vígstöðvum að vinna af heilindum með öðrum hluthöfum að árangursríkum rekstri.

Með útgáfu nýrra hluta í FL Group í tengslum við þessi kaup styrkist FL Group til áframhaldandi sóknar á alþjóðlegum vettvangi. Það er einnig ánægjulegt að fá nýja hluthafa til liðs við félagið með svo myndarlegum hætti og ég er viss um að nærvera þeirra mun verða okkur hvatning til enn frekari dáða á komandi misserum," segir Hannes Smárason í yfirlýsingu sinni til Kauphallarinnar.