Sund ehf. hefur keypt 31% hlut í Gretti sem var áður í eigu Tryggingamiðstöðvarinnar. Greitt var fyrir bréfin með reiðufé. Eftir viðskiptin er Sund ehf. stærsti hluthafinn í Gretti ehf. með 49% hlut í félaginu. Aðrir eigendur eru Landsbankinn og Ópera Fjárfestingar ehf. Eigið fé Grettis er um 35 milljarðar króna. Helstu eignir Grettis eru hlutabréf í Straumi-Burðarási, Landsbankanum, Avion Group og Icelandic Group sem eru öll félög skráð í Kauphöll Íslands.

Sigurður G. Guðjónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Grettis og segir hann að ætlunin sé að breyta og skerpa áherslur félagsins og í framhaldinu er gert ráð fyrir að umsvif þess aukist. "Þegar fram líða stundir reikna menn með því að efla félagið en fyrsta skrefið var að ljúka þessum viðskiptum við Tryggingamiðstöðina þannig að það væri einn stór hluthafi sem leiddi félagið," sagði Sigurður. Hann sagði aðspurður að ætlunin væri að endurskipuleggja stjórn félagsins og fækka úr fimm niður í þrjá í stjórn. Þannig myndi hún verða skilvirkari. Sömuleiðis er ætlunin að setja félaginu ný markmið og sagði Sigurður að hugsanlegt væri að það myndi hefja starfsemi erlendis þó engin ákvörðun hefði verið tekin um það.

Aðaleigendur Sunda eru systkinin Jón og Gabríela Kristjánsbörn og Gunnþórunn Jónsdóttir, móðir þeirra. Sigurður segist hafa unnið fyrir fjölskylduna síðan 1992.