Ríflega 183 milljóna króna tap varð af rekstri samstæðu Hvals hf. og dótturfélaganna Vogunar og Væntingar á síðasta rekstrarári sem lauk í september sl. Hvalur stundar ekki einungis hvalveiðar heldur er einnig eitt öflugasta fjárfestingarfélag landsins í gegnum 98% hlut sinn í Vogun, stærsta hluthafanum í HB Granda og Hampiðjunni. Þá er Hvalur stærsti hluthafinn Nýherja í gegnum Væntingu.

Eigið fé Hvalssamstæðunnar var þrettán milljarðar króna í lok reikningsársins og er eiginfjárhlutfall hennar um 87%. Stærsta einstaka eign samstæðunnar er 40% hlutur í HB Granda sem svarar til tvo þriðju hlutar heildareigna hennar.

Rekstur hvalveiðiskipa og kostnaður í Hvalfirði nam 1,5 milljörðum króna en tekjur af útflutningi fisk- og hvalaafurða námu 90 milljónum. Stærstu eigendur Hvals hf. eru Fiskveiðihlutafélagið Venus, sem fer með 39,5% hlut, og Ragnhildur Halldórsdóttir Skeoch, sem á 10,7% hlut.