Í núverandi efnahagsástandi, þegar skorið er niður í fjármálum ríkis og sveitarfélaga, almannaþjónusta dregst saman og skattar hækka, takast orkuveitur á við umtalsverðar áskoranir við að útvega það fjármagn sem þarf til þróunar jarðhitaverkefna. Þetta kemur fram í skýrslu um íslenska jarðhitamarkaðinn sem orkuteymi Íslandsbanka vann og birti í síðustu viku. Fjármagnið sem veiturnar þarfnist til að þekja grunnkostnað þurfi vegna mikillar skuldsetningar að koma frá eigin fé eða almennum markaði.

„Þar sem flest nýju verkefnanna eru enn á frumstigi er lánsfjármögnun ekki valkostur. Til að þróa verkefni þurfa veiturnar innspýtingu eigin fjár frá eigendum sínum. Í tilfelli Landsvirkjunar er það íslenska ríkið en aðaleigandi Orkuveitu Reykjavíkur er Reykjavíkurborg. Eigendur HS Orku eru Geysir Green Energy og Magma Energy.“

Þversagnir veruleikans

„Fjármálakreppan hefur leitt til þess að veiturnar eru mjög skuldsettar en þurfa á sama tíma að afla eigin fjár til rekstrar og nýrra verkefna. Á sama tíma er litið á raforkuiðnaðinn sem mögulega leið til að auka fjölbreytni efnahagslífsins og laða erlenda fjárfestingu til Íslands.

Ef það tekst að laða fyrirtæki úr orkufrekum iðnaði til Íslands þarf að útvega raforku til að mæta aukinni eftirspurn. Það felur aftur í sér frekari þróun í orkugeiranum, sem þýðir fleiri raforkuver. Sem stendur geta eigendurnir ekki veitt það aukafé sem þarf, þannig að eftir standa þeir möguleikar að útvega fé á almennum markaði eða gegnum fjárfesta.

Ljóst má vera að eðli eigin fjár er að standa fyrir hagsmuni hluthafa í hlutafélagi, eða í tilfelli íslensku veitnanna að eigin fé frá nýjum fjárfestum dregur úr vægi eigna þeirra hluthafa sem fyrir eru. Ef núverandi eigendur geta ekki veitt aukið fé verður það að koma utan núverandi hluthafahóps.“