Hagnaður varð af rekstri Íbúðalánasjóðs á fyrstu sex mánuðum ársins að fjárhæð 2,8 milljarðar króna, samanborið við 2,7 milljarðar króna á sama tíma í fyrra.

Eigið fé hans í lok júní nam 20,5 milljarðar króna, samanborið við 17,7 milljarða á sama tíma fyrir ári.

Eiginfjárhlutfall sjóðsins sem reiknað er samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 544/2004 um Íbúðalánasjóð er 7,5%.

Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%.

Árshlutareikningurinn er nú í fyrsta sinn gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) um árshlutareikninga. Áhrif breytinga á eigið fé sjóðsins 1. janúar 2007 vegna innleiðingar alþjóðlegra reikningsskilastaðla er hækkun um 1,3 milljarðar króna.