Að sögn Þórðar Guðmundssonar, forstjóra Landsnets, hefur styrking krónunnar undanfarna daga gert það að verkum að eiginfjárhlutfall félagsins er aftur orðið jákvætt.

Á vegum iðnaðarráðuneytsins er unnið að endurskoðun raforkulaga og sagði Þórður að félagið vildi sjá ákveðnar breytingar er vörðuðu tekjumörk félagsins. Arðsemi Landsnets miðast eingöngu við fastafjármuni en ekki er tekið tillit til fjármagnskostnaðar eða slíkra þátta. ,,Við höfum bent á að það þurfi að skoða það og það er til umræðu. Ef svo verður verður fyrirtækið betur í stakk búið til að takast á við sín verkefni.”

- Hvernig er eiginfjárstöðu annarra orkufyrirtækja háttað?

,,Flest orkufyrirtækin eru á svipuðu róli – að fara frá mjög sterku eiginfjárhlutfalli niður í mjög veikt. Ég held að við séum eina orkufyrirtækið sem var komið í neikvæða stöðu en það eru eðlilegar skýringar á því vegna þess að flutningsstarfsemi er almennt talin mjög traust og örugg starfsemi þar sem áhætta er lítil sem engin. Þess vegna var fyrirtækinu ýtt úr vör með 20% eiginfjárhlutfalli. Það var talið vera alveg nóg og sambærilegt við það sem við höfum sést vera að gerast erlendis þegar systurfyrirtæki Landsnets hafa verið stofnuð. Þau búa hins vegar í mun stöðugara umhverfi og þess vegna hefur eiginfjárhlutfall haldist.”

Þórður sagði að uppbygging flutningsgerfisins hefði verið gríðarleg á síðustu árum og eignastofn félagsins hefði tvöfaldast síðan félagið var stofnað. ,,Það segir sig sjálft að eiginfjárhlutfallið tekur verulegum breytingum vegna þessara miklu breytinga í efnahagnum.”

Nánara viðtal verður við Þórð í Viðskiptablaðinu á morgun.