Eigið fé MP banka er undir þeim mörkum sem Fjármálaeftirlitið hefur sett honum, að því er kom fram í kvöldfréttum Rúv. Segir að MP banki hafi ekki staðist mat á eiginfjárkröfu sem FME gerir en eftirlitið hefur tekið upp nýjar og strangari aðferðir við að meta stöðu bankanna.

Í samtali við fréttastofu Rúv segir Ragnar Þórir Guðgeirsson, stjórnarformaður MP banka, að unnið sé að því að fá fjárfesta að bankanum. Hann sé bjartsýnn og málið eigi að skýrast fljótlega, enda sé lausafjárstaðan traust og að bankinn gangi vel.

Seðlabankinn birti í síðustu viku upplýsingar um eiginfjárstöðu bankanna í Fjármálastöðugleika, riti bankans. Þar var staða MP banka ekki birt. Í Fjármálastöðugleika stendur: „MP Banki hefur metið eiginfjárþörf sína og leitast nú við að styrkja eiginfjárstöðuna í samráði við Fjármálaeftirlitið.“

„Hvorki Fjármálaeftirlitið, Seðlabankankinn eða fjármálaráðuneytið vildu um helgina svara því hvort þetta snúist um tæknilegt útfærsluatriði, eða hvort bankinn sé í hættu. Þó var sérstaklega bent á að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um tryggingar á innlánum sé enn í fullu gildi og eigi líka við um MP,“ segir í frétt Rúv.

Viðskiptablaðið hefur áður spurt forsvarsmenn MP banka hvort þeir hyggist birta hálfsársuppgjör bankans opinberlega, en bankanum er ekki skylt að birta árshlutareikning sinn opinberlega þar sem hann hefur ekki útistandandi skuldabréf í kauphöll. Ekki hafa fengist afgerandi svör hvort reikningurinn verði birtur.