Eins og kunnugt er orðið var nýr Kaupþing banki stofnaður af yfirvöldum síðastliðna helgi.

Samkvæmt vef Fjármálaeftirlitsins (FME), sem yfirtók (gamla) Kaupþing þann 9. október síðastliðinn, tekur hinn nýi banki yfir innlendar eignir Kaupþings en alþjóðleg starfssemi bankans er skilin frá.

Þá kemur fram að eigið fé nýja bankans verður 75 milljarðar króna sem ríkið leggur fram. Stærð efnahagsreiknings hins nýja banka verður um 700 milljarðar króna.

Nýi Kaupþing banki mun taka yfir allar innstæðuskuldbindingar í bankanum á Íslandi og sömuleiðis stærstan hluta eigna bankans sem tengjast íslenskri starfsemi s.s. lán og aðrar kröfur.

Á vef FME kemur fram í dag að á næstu 90 dögum mun fara fram mat óháðs aðila á verðgildi eigna og skulda og lokauppgjör.

Eins og fram kom í gær hefur Finnur Sveinbjörnsson verið ráðinn bankastjóri.

Öll útibú, þjónustuver, hraðbankar og netbanki Kaupþings verða opin samkvæmt vef FME.