Rekstrartekjur sveitarfélagsins Álftaness voru 1.378 milljónir króna á síðasta ári, samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A-hluta. Sveitarfélagið birti ársreikning sinn fyrir síðasta ár í dag. Rekstrarniðurstaðan var neikvæð um 8,8 milljónir króna. Eigið fé í árslok 2010 var neikvætt um 1.250 milljónir. Áætlun gerði ráð fyrir að eigið fé yrði neikvætt um 759 milljónir, en það var neikvætt um tæplega 450 milljónir í lok árs 2009.

Líkt og greint hefur verið frá hefur Álftanes átt í miklum fjárhagserfiðleikum. Heildarskuldir hækkuðu á síðasta ári um rúmlega 2,3 milljarða og nema alls um 5,5 milljörðum. Í ársreikningi segir að helsta skýring hækkunarinnar sé leiguskuld vegna fasteigna.

Vegna erfiðar fjárhagsstöðu sveitarfélagsins var leitað til Eftirlistnefndar með fjármálum sveitarfélaga og skipaði ráðherra sveitarfélaginu fjárhaldsstjórn í febrúar 2010.

Íbúar sveitarfélagsins voru þann 1. desember sl. alls 2.479 og fækkaði um 45 á árinu.

Ársreikningur Álftaness.