Útgáfufélagið Heimur tapaði tæplega 15 milljónum króna á árinu 2010. Eignir félagsins námu um 28 milljónum í árslok. Helstu eignir eru viðskiptakröfur að fjárhæð 20,2 milljónir króna. Bókfært eigið fé var neikvætt um 4,7 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins var við síðustu áramót neikvætt um 16,9% en skuldir nema um 32,5 milljónum.

Heimur er dótturfélag Talnakönnunar, sem er að 72% hluta í eigu Benedikts Jóhannessonar. Vigfús Ásgeirsson á 12% hlutafjár og aðrir hluthafar um 16%. Í ársreikningi Heims kemur fram að það sé mat stjórnenda að miðað við fyrirhugaðar ráðstafanir í rekstri á þessu ári sé félagið rekstrarhæft. Fyrir liggur yfirlýsing frá stjórn móðurfélags um að það muni ekki ganga að félaginu vegna skuldar.