Gjaldfærður fjármagnskostnaður Icelandair Group hf gjaldárin 2008-2012 var lækkaður með úrskurði frá Ríkisskattstjóra sem birtur var í dag. Þetta er gert á grundvelli dóms frá 28. febrúar síðastliðnum í máli Toyota á Íslandi ehf. gegn Íslenska ríkinu.

Þetta þýðir að yfirfæranlegt tap Icelandair Group hf. minnkar um allt að 6,4 milljarða króna. Icelandair segir í tilkynningu til Kauphallarinnar að ef málið tapast að fullu fyrir dómstólum þá geti eigið fé félagsins lækkað um allt að 1,3 milljarða króna, eða 11,1 milljón USD. Eigið fé Icelandair nam í lok síðasta árs tæpum 296 milljónum dollara eða um 34,6 milljörðum íslenskra króna.

Stjórnendur Icelandair Group hf. eru ósammála niðurstöðu Ríkisskattstjóra og ætla að kæra úrskurðinn til yfirskattanefndar.