Hagnaður samvinnufélagsins Kaupfélags Skagfirðinga nam 5,4 milljörðum króna árið 2021 samanborið við 3 milljarða árið áður og 4,8 milljarða árið 2019. Afkoman er sú besta í yfir 130 ára sögu kaupfélagsins. Starfsemi félagsins er umfangsmikill og hefur það verið einn helsti atvinnurekandinn í Skagafirði og nágrenni. Félagið rekur meðal annars mjólkur- og kjötafurðastöð, bifreiða- og vélaverkstæði, byggingavöruverslun og Skagfirðingabúð, allt á Sauðárkróki, en auk þess rekur félagið kaupfélag á Hofsósi og Ketilási í Fljótum. Jafnframt á félagið hlutdeild í samtals 21 dótturfélagi og nemur bókfært virði þeirra 38,4 milljörðum króna. Á árinu festi félagið kaup á majónesframleiðandanum Gunnars ehf.

Eigið fé nemur 49 milljörðum

Samkvæmt ársreikningi samstæðunnar voru skuldir 30 milljarðar og hækkuðu um 2,5 milljarða á milli ára. Bókfært virði eigin fjár samstæðunnar nam 49 milljörðum króna í árslok 2021 samanborið við 42 milljarða árið áður. Þá nam hlutdeild móðurfélagsins í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga 4,3 milljörðum króna. Arðgreiðslur samvinnufélaga, líkt og Kaupfélags Skagfirðinga, eru verulegum skilyrðum háðar.

Samkvæmt ársreikningi samstæðunnar námu eignir 80 milljörðum króna í árslok 2021 samanborið við 71 milljarð árið áður. Þá á samstæðan aflaheimildir að virði 23,4 milljarðar króna, fasteignir að virði 9 milljarðar og skip að verðmæti 4,7 milljarðar króna.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.