Norvik er eitt stærsta fjölskyldufyrirtæki landsins en eignir samstæðunnar voru bókfærðar 270 milljónir evra, jafngildi 37,5 milljarða króna, undir lok síðasta árs. Egið fé var 194 milljónir evra eða 27 milljarðar króna og um 2.000 starfsmenn starfa hjá félaginu þar af um 1.500 manns hjá félaginu Bergs Timber, sem skráð er í sænsku Kauphöllinni.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Jón Helga Guðmundsson, forstjóra og aðaleiganda Norvik, í Markaði Fréttablaðsins í dag.

Um tveir þriðju hlutar veltu Norvik koma að utan og hækkaði það hlutfall mjög árið 2013 þegar Norvik seldi Kaupás, sem átti m.a. Krónuna, Elko, Nóatún, Intersport og auglýsingastofuna Expó. Fyrsta skrefið erlendis var hins vegar tekið árð 1993 þegar Byko Lat var stofnað í Lettlandi, en síðan þá hafa umsvif félagsins á Balkanlöndunum, Svíðþjóð, Bretlandi og Rússlandi aukist jafnt og þétt.

Stærsta eign félagsins er áðurnefnt Bergs Timber sem rekur m.a. þrjár verksmiðjur í Lettlandi og stærstu sögunarmyllu baltensku landanna sem framleiði 270 þúsund rúmmetra á ári. Velta Bergs Timber var að jafnvirði 39 milljarða íslenskra króna frá september 2017 til desember 2018. Markaðsvirði hlutarins er tæpir sjö milljarðar en vegna erfiðra markaðsaðstæðna hafa bréfin fallið um tæp 30 prósent á einu ári. „Ég hef engar áhyggjur af því. Lækkunina má rekja til tímabundinna markaðsaðstæðna. Skordýraárásir hafa leitt til aukins framboðs af trjám á markaðnum og því lækkar verð,“ segir Jón Helgi í viðtali við Markað Fréttablaðsins.