Rekstur skandinavíska flugfélagisins SAS hefur lengi verið vandkvæðum bundinn en svo virðist sem nánast allt eigið fé félagsins verði upp urið þann 1. nóvember 2013  þegar nýjar bókhaldsreglur Evrópusambandsins verða teknar upp. Þetta kemur fram á viðskiptavefnum E24.no.

Í frétt E24 kemur fram að lífeyrisskuldbindingar SAS gagnvart starfsmönnum félagsins námu 10,7 milljörðum sænskra króna í árslok 2011. Eigið fé félagsins samkvæmt árshlutauppgjöri sem birt var í dag nemur um 11,5 milljörðum sænskra króna. Í nóvember 2013 mun félagið svo aðlaga sig að nýjum bókhaldsreglum Evrópusambandsins en samkvæmt þeim þarf SAS að taka tillit til umræddra skuldbindinga.

Rekstur SAS á fyrri hluta þessa árs skilaði 320 milljóna sænskra króna hagnaði eftir skatta. Það var undir væntingum markaðsaðila samkvæmt frétt E24 um uppgjör félagsins.

Sænska, norska og danska ríkið eiga öll stóran eignarhlut í félaginu og hafa þurft að taka þátt í hlutafjáraukningu tvisvar á undanförnum árum til að styðja við rekstur félagsins. Ríkisstjórnir landanna hafa áður sagt að ekki komi til greina að fara út í enn aðra hlutafjáraukningu. Miðað við stöðu félagsins gæti slíkt þó orðið nauðsynlegt á næsta ári.