*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 18. desember 2020 18:03

Eigið fé sjávarútvegs 356 milljarðar

Rekstrarhagnaður sjávarútvegs fór upp í um 46 milljarða á síðasta ári, en hagnaðarhlutfallið jókst úr 25% í ríflega 30%.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hlutfall hagnaðar sjávarútvegsfyrirtækja af heildartekjum jókst á síðasta ári úr ríflega fjórðungi í tæplega þriðjung á síðasta ári samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Nam hann í heildina um 42 upp í 46 milljörðum íslenskra króna, eftir því hvernig hagnaðurinn er reiknaður.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í lok síðasta mánaðar jókst hagnaður tíu stærstu útgerðarfyrirtækja landsins um helming á árinu 2019, í 29 milljarða króna.

Hagnaðarhlutfall sjávarútvegsfyrirtækja í heild sinni af fiskveiðum og vinnslu, fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt, það er verg hlutdeild fjármagns, EBITDA, fór á árinu úr 25,2% í 30,6%. Ef einungis er horft til fiskveiða þá fór hlutfallið úr 18% í 23,1%, en mun minni breyting var á hagnaði við fiskvinnsluna þar sem hlutfallið jókst úr 14,8% í 15,9%.

Hreinn hagnaður, EBIT, í sjávarútvegin nam 19% á síðasta ári en hann hafði numið 12,2% árið áður, samkvæmt árgreiðsluaðferð. Það er samanlagt 46,2 milljarða króna hagnaður eftir 28,2% árgreiðsla hefur verið gjaldfærð.

Sé hins vegar miðað við hefðbundna uppgjörsaðferð er niðurstaðan 17,4% hagnaður árið 2019 eða 42,2 milljarðar króna samanborið við 11,5% hagnað árið 2018 eða 25,4 milljarðar króna.

Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegarins tæpir 786 milljarðar króna í árslok 2019, heildarskuldir rúmir 430 milljarðar króna (hækkun um 4%) og eigið fé tæpir 356 milljarðar króna.