Heildareignir íslenskra verðbréfa- og fjárfestingarsjóða námu í lok marsmánaðar 303,9 milljörðum króna og er það aukning um 7,2 milljarða eða 2,4%. Frá þessu greinir Morgunblaðið og vísar til nýrra talna frá Seðlabankanum.

Öðru fremur virðist þó um skuldaaukningu að ræða, skuldir jukust um 7,3 milljarða, og dróst eigið fé saman um tæpar 80 milljónir króna í mánuðinum. Litið yfir heilt ár hefur eigið fé dregist saman um 25 milljónir en efnahagsreikningurinn hefur stækkað um samanlagt 68,2 milljarða.

Eignir fyrirtækja sem flokkast til „Ýmissa lánafyrirtækja“ í tölum Seðlabankans námu í marslok rúmu 1.106 milljörðum króna. Til þeirra flokkast Íbúðalánasjóður og Byggðastofnun.