Vignir Rafn Gíslason
Vignir Rafn Gíslason

Eigið fé sex stærstu íslensku bankanna var um 1.000 milljarðar króna í júní 2008, aðeins nokkrum mánuðum fyrir hrun. Til samanburðar var eigið fé allra íslenskra fyrirtækja um 7.180 milljarðar í árslok 2007. Kom þetta fram í máli Vignis Rafns Gíslasonar, endurskoðanda hjá PwC á Íslandi, á fundi um ábyrgð endurskoðenda og stjórnenda á ársreikningum fyrirtækja sem haldinn var í dag.

Sagði hann að endurskoðendur bankanna hefðu m.a. þurft að byggja á upplýsingum um fjárhagslega stöðu helstu skuldara bankanna, en þær væri að finna í ársreikningum þeirra. Sagði hann að eigið fé 10 stærstu skuldara Landsbankans hefðu í árslok 2007 verið um 840 milljarðar króna og að einungis í tveimur tilfellum hafi endurskoðendur þessara skuldara gert fyrirvara í ársreikningum.

Tíu stærstu skuldarar Glitnis voru á sama tíma með eigið fé upp á tæpa 890 milljarða króna og í engu tilvikanna hafi endurskoðandi viðkomandi fyrirtækja sett fyrirvara við áritun á reikning. Hann tók fram að hann væri ekki að gefa í skyn að endurskoðun reikninganna hafi verið ábótavant, en benti þó á að í sumum tilfellum hefðu mismunandi aðferðir við að meta hlutabréfaeign haft áhrif á eiginfjárstöðu viðkomandi fyrirtækja. Til dæmis hefði Exista notað hlutdeildaraðferð til að verðmeta hlutabréfaeign sína í ákveðnum fyrirtækjum, en ef þau hefðu verið skráð á markaðsvirði hefði eiginfjárstaða Existu versnað um 100 milljarða króna.