E igið fé Eignarhaldsfélagsins Steins jókst milli ára og fór úr 53,7 milljörðum króna árið 2019 í 61,7 milljarða króna 2020, ef miðað er við gengi evrunnar í lok hvers árs. Eiginfjárhlutfallið var 97,1 prósent við árslok.

Félagið er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar, stofnanda Samherja, og fyrrverandi eiginkonu hans, Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur. Þorsteinn Már á 51 prósents hlut og Helga Steinunn á 49 prósenta hlut.

Hagnaðurinn ársins 2020 nam rúmlega 1,16 milljörðum króna en var um 25,8 milljónir króna árið áður, ef miðað er við meðaltal gengi evrunnar á hverju ári. Í fyrra nam hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga 1,14 milljörðum króna en árið áður skiluðu þær rúmlega 236 milljónum króna

Sjá einnig: Láta börnin fá hlutinn í Samherja

Samherja var skipt upp í tvö félög árið 2018, þar sem erlend starfsemi Samherja var færð í félagið Samherja Holding ásamt eignarhluta félagsins í Eimskipi, sem tvöfaldast hefur að virði á þessu ári og nemur um 30 milljörðum króna. Aðaleigendur Samherja, þau Helga Steinunn, Þorsteinn Már, Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir, seldu hluti sína í félaginu til barna sinna í fyrra en eiga enn Samherja Holding.

Sjá einnig: Eigendur Samherja eiga um 190 milljarða

Hlutabréfaeign Eignarhaldsfélagsins Steins í Samherja fór úr 548 milljónum króna á árinu 2019, miðað við gengi evrunnar í lok árs 2019, niður í núll krónur á árinu 2020. Hlutabréfaeign eignarhaldsfélagsins í Samherja Holding fór úr 22,4 milljörðum króna í 25,7 milljarða króna. Verðmæti eignarhluta í öðrum félögum fór úr 2,14 milljörðum króna á árinu 2019 í 2,27 milljarða króna árið 2020.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til hluthafa á árinu 2021 vegna rekstrarársins 2020.