Átta aflandsfélög í eigu Landsbankans, sem stofnuð voru utan um kauprétti starfsmanna, voru látin kaupa alls 13,2% hlut í bankanum sem gerðu þau samanlagt að næststærsta eiganda hans. Viðskiptablaðið hefur greint ítarlega frá starfsemi félaganna um helgina.

Stærst aflandsfélaganna var Empennage Inc. sem skráð var í Panama. Félagið var fjármagnað af Kaupþingi og nam heildarskuld þess við bankann við bankahrun um 7,9 milljörðum króna. Einu eignir félagsins sem keyptar voru fyrir lánin voru hlutabréf í Landsbankanum.

Þegar bankahrunið stóð sem hæst, þann 1. október 2008, var lán Kaupþings til Empennage framlengt. Í skýrslu rannsóknarnefndar segir að „01.10.2008 eru lánin [til Empennage] framlengd einhliða af Bjarka Diego frá gjalddaga 05.08.2008 með nýjum gjalddaga 15.10.2008 þar sem vöxtum af láni ISK 6,8 ma., ISK 1.077.130.069 er bætt við. Samtals ISK 7.887.130.069 án allra pappíra eða heimilda lánanefnda, samkvæmt fyrirskipun Bjarka Diego." Þann 7. júní 2009 voru lánin enn í vanskilum í bókum Kaupþings.

Í skýrslunni segir að þarna hafi vaknað "sú spurning hvort eiginfjárhlutfall bankans hafi hækkað án raunverulegs eiginfjárframlags."

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .