Skilanefnd Kaupþings mun leggja til 66 milljarða króna í eigið fé til Arion banka í stað íslenska ríkisins þegar að hún, fyrir hönd kröfuhafa bankans, mun eignast 87 prósent hlut í Arion banka. Íslenska ríkið lagði upphaflega til 72 milljarða króna í eigið fé til Arion banka í formi ríkisskuldabréfa um miðjan ágúst síðastliðinn. Það mun nú fá 66 milljarða króna af þeirri upphæð til baka.

Eignarhlutur ríkisins, sem verður 13 prósent, er tilkominn vegna þess sex milljarða króna framlags ríkisins sem verður eftir inni í bankanum. Auk þess hefur íslenska ríkið veitt Arion banka 25 milljarða króna víkjandi lán til að mæta eiginfjárþörf hans. Heildarframlag ríkisins til Arion verður því 31 milljarður króna, að langstærstum hluta í formi víkjandi láns.

Niðurstaðan kynnt fyrir starfsfólki klukkan 13:00

Verið er að kynna þessa niðurstöðu fyrir starfsfólki Arion banka á starfsmannafundi sem hófst klukkan 13:00. Líkt og vefur Viðskiptablaðsins greindi frá fyrr í dag þá mun þessi niðurstaða síðan verða kynnt opinberlega á blaðamannafundi í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni klukkan 14:00.

Nýir eigendur að mestu erlendir skuldabréfaeigendur

Samsetning hins nýja eigendahóps mun ekki liggja fyrir fyrr en kröfulýsingafrestur í bú Kaupþings rennur út á gamlársdag. Á bilinu 70 til 80 prósent kröfuhafa Kaupþings eru taldir vera skuldabréfaeigendur en viðskipti með skuldabréf bankans eru enn í fullum gangi. Þau seljast nú á um 21,5 prósent af upphaflegu virði sínu á mörkuðum sem þýðir að væntingar eru til þess að rúmlega fimmtungur fáist upp í kröfur á bankann.