Samkvæmt upplýsingum sem koma fram í ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins hefur eiginfjárhlutfall (CAD hlutfall) viðskiptabanka og stærstu sparisjóða í heild hér á landi farið hækkandi frá árslokum 2000 þegar það var tæplega 10%. Var það orðið tæplega 14% í lok júní 2005. Stærsti bankinn, Kaupþing banki var með mjög hátt eiginfjárhlutfall (15,8%) í lok júní 2005 skömmu fyrir yfirtöku á Singer & Friedlander bankanum í London. Án Kaupþings banka, sem vegur meira en 40% í útreikningi á framangreindum tölum um eiginfjárhlutfall fyrir viðskiptabanka og sparisjóði í heild, væri eiginfjárhlutfallið 12,5%.

Eiginfjárhlutfall samkvæmt eiginfjárþætti A var 8,1% í árslok 2000 en 10,9% í lok júní 2005 (9,2% án Kaupþings banka). Lágmarkshlutfall miðað við álagspróf samkvæmt viðmiðum í reglum Fjármálaeftirlitsins um hærra eiginfjárhlutfall var 9,5% í lok júní 2005 en þau viðmið gera m.a. ráð fyrir 25% lækkun á bókfærðu virði hlutabréfa í eigin áhættu, 7% lækkun á virði
markaðsskuldabréfa í eigin áhættu og 20% lækkun á virði vaxtafrystra lána og fullnustueigna. Lágmarkshlutfallið hefur farið lækkandi vegna minnkandi vægis markaðsverðbréfa og vanskilalána í hlutfalli af eigin fé.

Hjá Fjármálaeftirlitinu hefur verið til skoðunar að endurskoða umrædd viðmið, t.d. hvort viðmið um 25% lækkun á virði hlutabréfa sé nægilega varkárt og hvort ástæða sé til að taka fleiri áhættuþætti inn í viðmiðin eins og fastvaxtaáhættu, áhættu vegna hlutabréfalána og fasteignalána. Á heildina litið virðist eiginfjárstaða viðskiptabanka og sparisjóða vera viðunandi miðað við lok júní 2005 segir í ársskýrslu FME.