Viðskiptablaðið fjallaði í vikunni um fyrirspurn ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, til innviðaráðuneytisins varðandi flokkun Félagsbústaða á félagslegu húsnæði sem „fjárfestingareign“. Út frá þeirri skilgreiningu hafa Félagsbústaðir, dótturfélag Reykjavíkurborgar, bókfært fasteignir sínar á gangvirði fremur en kostnaðarverði. Ljóst er að ef félagið neyðist til að skipta um matsaðferð muni það hafa í för með sér að fjárhagur borgarinnar taki verulegum breytingum.

Sjá einnig: 70 milljarða bókhaldsvilla?

Í lok september 2021 voru fjárfestingareignir Félagsbústaða, þ.e. leiguíbúðir, bókfærðar á 116 milljarða króna. Þar af var matshækkun fjárfestingareigna 68,6 milljarðar og kostnaðarverð 47,5 milljarðar. Einnig má gera ráð fyrir að afskrifa þurfi fasteignir ef þær eru metnar á kostnaðarverði en fjárfestingareignir Félagsbústaða hafa ekki verið afskrifaðar undir gangvirðismati.

Í lok september síðastliðins námu eignir borgarinnar, A- og B-hluta, 757 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall var 46,9%. Ef eignir Félagsbústaða væru færðar á kostnaðarverði myndi eiginfjárhlutfallið lækka niður í 41,6% eða um meira en fimm prósentustig.

Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs voru matsbreytingar Félagsbústaða 13,8 milljarðar króna sem spilaði stærsta þáttinn í að samstæða Reykjavíkurborgar skilaði 15,5 milljarða afgangi á tímabilinu. Matsbreyting fjárfestingareigna Félagsbústaða nam að meðaltali 4,3 milljörðum króna árin 2017-2020.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .