Töluvert ber á milli talna um eiginfjárhlutfall Existu eftir því hvaða aðferð er notuð við útreikningana. Yfirlýst eiginfjárhlutfall Existu (sem er eigandi útgáfufélags Viðskiptablaðsins) er 37%, og eru þá hlutdeildarfélögin – Sampo Group og Kaupþing – reiknuð inn á bókvirði. Inn í þá útreikninga eru einnig tekin svokölluð eiginfjárskírteini, sem eru í raun víkjandi bréf félagsins.

Alls nema þau 260,9 milljónum evra. Frekari upplýsingar fengust ekki um þá tölu, hvorki hverjir lánardrottnarnir eru né hver kjörin eru. Víkjandi lán mæta afgangi ef fyrirtæki geta ekki greitt skuldbindingar sínar og vegna þess eiginleika geta fjármálafyrirtæki notað víkjandi lán inn í útreikninga sína á eiginfé, og þar með á eiginfjárhlutfallinu. Ef eiginfjárskírteini eru hins vegar ekki tekin með, nemur eiginfjárhlutfall félagsins 33%.

Gagnrýni og svör

Stjórnendum og greinendum Existu ber ekki saman um hvaða aðferð skuli nota. Stjórnendur hafa lofað hátt eiginfjárhlutfall á sama tíma og greinendur hafa gagnrýnt aðferð þeirra við að færa hlutdeildina í bækur sínar. Segja þær gagnrýnisraddir að eðlilegra sé að bókfæra félögin á markaðsvirði, því það gefi skýrari mynd af eignum félagsins.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .