Á árinu 2008 var tap af rekstri samstæðu Landsvirkjunar 344,5 milljónir Bandaríkjadala en rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) var 246 milljónir Bandaríkjadala.

Handbært fé frá rekstri nam 184,4 milljónum Bandaríkjadala.

Í árslok námu heildareignir samstæðunnar 4.619,2 milljónum Bandaríkjadala og eigið fé nam 1.376,8 milljónum Bandaríkjadala. Eiginfjárhlutfall er 29,8% í árslok 2008.

Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 660,6 milljónum Bandaríkjadala sem skýrist aðallega af lækkun á virði innbyggðra afleiða í orkusölusamningum sem tengdir eru álverði og gengistapi.

Fjármagnsþörfin 170 milljónir dala

Að sögn Stefáns Péturssonar, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Landsvirkjunar, er fjármögnunarþörf Landsvirkjunar um 170 milljónir dala á þessu ári og 200 milljónir dala á næsta ári.

„Við erum með þokkalegt handbært fé en við fórum inn í þetta ár með 100 milljónir dala í reiðufé. Við réðumst í það árið 2005 að taka svokallað veltilán sem virkar eins og yfirdráttarheimild og við getum dregið um 350 milljónir dala á það ef við kjósum svo. Sömuleiðis erum við með fé frá rekstri þannig að við teljum góðar líkur á að geta fjármagnað okkur allavega út árið 2010 þó að markaðir séu harðlokaðir,“ sagði Stefán.

Hann sagði að það miðaðist við að ekki væri ráðist í nýjar stórframkvæmdir á vegum félagsins.