Eiginfjárhlutfall Skipta hf. var 28% um síðustu áramót en var 30,4% eftir 1. ársfjórðung síðasta árs og hafði þá farið úr 34,4% frá sama tíma í upphafi árs 2007.

Ljóst er að ekki hafði orðið mikil breyting á vaxtaberandi skuldum að frádregnum innistæðum (nettó vaxtaberandi skuldir) sem námu 51,1 milljarði króna um áramót en voru 50,0 milljarðar árið áður.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) var 8.966 m.kr. miðað við 9.493 m.kr. árið áður. EBITDA hlutfallið er nú 23% samanborið við 28% árið áður.

Í ársreikningi félagsins segir Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, að afkoman af reglulegri starfsemi félagsins síðasta ári hafi verið ágæt miðað við aðstæður. Brynjólfur bendir á að gengisþróun íslensku krónunnar hafi verið verulega óhagstæð á árinu og skýrir að miklu leyti tap félagsins, þrátt fyrir gengisvarnir.

"Góður tekjuvöxtur var í starfsemi Skipta sem kemur að verulegu leyti frá erlendri starfsemi félagsins. Fjárhagsstaðan um áramót er góð, sem stafar annars vegar af sterku fjárstreymi úr rekstrinum og hins vegar af sölu eigna á síðari hluta ársins. Félagið er því í ágætri stöðu til að takast á við þá tíma sem framundan eru," segir Brynjóklfur.

Innan samstæðunnar eru meðal annars Síminn, Míla, Já, Skjárinn, Sensa, Tæknivörur, On-Waves,Radiomiðun og Staki. Erlend dótturfélög eru fjarskiptafélögin Aerofone í Bretlandi og Síminn Danmark í Danmörku, og upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT sem er með starfsemi í Noregi, í Svíþjóð og Danmörku