„Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum að lagfæra eiginfjárstöðuna hjá okkur og þessar aðgerðir stefna fyrst og fremst að því að treysta hana,“ segir Gísli Kjartansson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Mýrasýslu. Eins og greint var frá í síðustu viku hefur stjórn sparisjóðsins ákveðið að leggja fram tillögu til stofnfjáreigenda þess efnis að stofnfé sjóðsins verði aukið um 2 milljarða króna.

Eiginfjárhlutfall Sparisjóðs Mýrasýslu var 11,6% um áramót, samkvæmt ársreikningi sjóðsins. Þá stóð það í 8,7% í lok mars, samkvæmt upplýsingum frá Gísla Kjartanssyni. Lögum samkvæmt má eiginfjárhlutfall fjármálastofnana ekki fara undir 8%. Sé tekið mið af þróun eignasafns sjóðsins – en hann á til að mynda hlut í Existu og hafa bréf þess félags fallið um 66% frá áramótum – má gera ráð fyrir að hlutfallið hafi rýrnað enn frekar.

Spurður hversu hátt það var nú í lok júní, segir Gísli að uppgjör fyrir annan fjórðung sé ekki tilbúið og hann geti því ekki greint frá því – en að það komi í ljós í lok ágúst. Sparisjóðsstjórinn segir að aukið stofnfé bjargi eiginfjárhlutfallinu og eiginfjárstaðan verði sterk að aðgerðunum loknum.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .