Fjármálastöðugleikaráð hefur ákveðið að hækka eiginfjárkröfu á fjármálafyrirtæki um 0,5 prósentustig. Um er að ræða hækkun á svokölluðum sveiflujöfnunarauka sem verður 1,75% í stað 1,25%. Hækkunin mun þó ekki taka gildi fyrr en eftir ár.

Þá var einnig tekin ákvörðun um að fresta gildistöku á hækkun kerfisáhættuauka fyrir fjármálafyrirtæki sem teljast ekki kerfislega mikilvæg. Í stað þess að hann hækki fyrir umrædd fyrirtæki um 1 prósentustig þann 1. janúar 2019 mun hann taka gildi þann 1. janúar 2020.

Eiginfjárkröfur fjármálafyrirtækja byggjast á þremur þáttum. Í fyrsta lagi er stoð I sem er lágmarks eigið fé og nemur 8% af áhættuvegnum eignum, þá er stoð II sem er ólík eftir bönkum og byggir á innra áhættumati þeirra í samstarfi við eftirlitsaðila. Loks eru svokallaðir eiginfjáraukar sem skiptast í fernt, kerfisáhættuauki, auki vegna kerfislegs mikilvægis, sveiflujöfnunarauki og verndunarauki.