Heyrst hefur að vaxtastig Íbúðalánajóðs sé of hátt og að það skýrist af því að verið sé að reyna að bæta eiginfjárstöðu ÍLS. Aðspurður um þetta segir Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, það rétt að vaxtaálagið hafi verið aukið lítillega. Það megi hins vegar vel spyrja hvort verðlagning lánanna hafi verið rétt áður. „Þegar maður horfir á hvernig verðlagning var ákvörðuð frá árinu 1995 til dagsins í dag sér maður að þetta er tímabil góðæris. Þetta er uppgangstímabil og útlánatöp voru í sögulegu lágmarki. Menn horfðu á reynslu þessara ára þegar vaxtaálag var ákveðið. Mér finnst flest benda til þess að menn hafi verðlagt sig aðeins of lágt. Álagið hafi verið of lágt miðað við áhættu. Það má kannski líka segja að sjóðurinn hafi starfað á markaðssvæðum sem aðrir hafi ekki treyst sér til að sinna. Hann er því að taka áhættu og hefur e.t.v. ekki verðlagt þá áhættu rétt. Ég tel sjóðinn samt bjóða eins góða vexti og hægt er án þess að það raski rekstrarhæfni hans til langs tíma og það er markmið stjórnenda að tryggja þessa rekstrarhæfni. Í útboðum sjóðsins höfum við ekki verið að taka allt það fé sem hefur staðið til boða heldur reynt að tína inn bestu tilboðin og ná þannig sem bestum kjörum hverju sinni. Síðan er þetta bara spurning um hvað sé eðlilegt vaxtaálag til langs tíma.“

Eiginfjárhlutfall sjóðsins hefur verið í umræðunni að undanförnu, m.a. vegna kröfu AGS um að það verði hækkað í 5%. Sigurður segir að hvert prósentustig sé um 4 milljarðar í eigið fé og í ljósi þess myndi þurfa um 12 milljarða eiginfjárframlag frá ríkinu til þess að hækka eiginfjárhlutfallið upp í 5%. „Það er hins vegar töluverð óvissa í þessu. Eins og áður segir vorum við mjög varfærin í afskriftum og ef þær ganga ekki eftir færum við eitthvað af þeim tilbaka. Þá situr eitthvað eftir sem eigið fé. Það mun samt taka eitthvað inn á næsta ár til þess að við náum föstu landi og getum sagt hversu miklar afskriftirnar verða í raun. Við getum auðvitað áætlað hverjar afskriftirnar verða á næstu árum með hjálp líkana en þar eru ýmsar forsendur óljósar. Nú er fasteignaverð til dæmis farið að hækka á ný sem breytir útkomunni.

Að hluta til held ég að við þurfum að fara einhverja blandaða leið hvað varðar eiginfjárhlutfallið. ÍLS er ekki rekinn í hagnaðarskyni en arðsemin þarf að vera nægileg svo hægt sé að byggja upp eigið fé til að mæta áföllum í rekstri. Þegar vel gengur þá byggist eigið fé upp en þegar illa árar þá getur gengið á eigið fé. Við þurfum því að finna út hvaða arðsemi er nægjanleg til þess að byggja upp sterkt eigið fé til lengri tíma litið. Þó eru ekki allir á einu máli um hversu mikið eigið fé eigi að vera. Sumum finnst sjóðurinn eiga að vera gegnumstreymissjóður sem þarf ekkert eigið fé en aðrir telja eigið fé eiga vera jafnmikið og hjá öðrum fjármálafyrirtækjum. Ef sjóðurinn færi að fullu undir reglur og eftirlit Fjármálaeftirlitsins væri krafa um 8% eiginfjárhlutfall eins og hjá öðrum fjármálafyrirtækjum og þá þurfum við allt að 24 milljarða eiginfjárframlag.“

SIgurður Erlingsson, framkvæmdastjóri, er í viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar ræðir hann m.a. stöðu sjóðsins, verðtrygginguna, ESA o.fl. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublað.