Erlendir aðilar áttu ríkisskuldabréf fyrir 186 milljarða króna í lok ágúst. Eign erlendra aðila í ríkisskuldabréfum jókst um 18 milljarða í ágústmánuði, eða um tæpar 600 milljónir króna á dag að jafnaði. Aukningin í mánuðinum nemur 11 prósentum. Þetta má lesa úr Markaðsupplýsingum Lánamála ríkisins sem birtar voru í dag.

Mest jókst eign erlendra aðila í lengri óverðtryggðum bréfum. Mesta aukningin í stöðu erlendra aðila var í skuldabréfaflokknum RIKB 25. Staða erlendra aðila í flokknum var 12 milljarðar í lok júlí, en yfir 19 milljarðar í lok ágúst.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur áhugi erlendra aðila á að fjárfesta hér á landi farið mjög vaxandi undanfarna mánuði. Seðlabankinn hefur kannað það að grípa til ráðstafana til að hafa stjórn á innflæðinu, en vísbendingar eru um að hinir erlendu aðilar séu að fjárfesta til lengri tíma frekar en um sé að ræða kvikt fjármagn í leit að skammtímaávöxtun.

Lífeyrissjóðir voru sem fyrr stærsti einstaki hópur eigenda ríkisbréfa í lok ágúst, en þá áttu þeir um 257 milljarða króna í slíkum bréfum. Það er um tveimur og hálfum milljarði króna minna en í lok júlí.