Virði hlutafjár sem íslenska ríkið lagði Landsbankanum, Arion banka og Íslandsbanka til hefur aukist um 20%, eða 33,3 milljarða króna. Við samkomulag um fjármögnun nýju viðskiptabankanna í lok árs 2009 var virði alls þess hlutafjár sem ríkið lagði þeim til um 135,1 milljarður króna. Um síðustu áramót nam hlutur ríkisins í eigin fé viðskiptabankanna þriggja hins vegar um 168,4 milljörðum króna. Ástæðan er betri kennitölur í rekstri þeirra sem skila sér í auknu virði. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið.

Lægra framlag

Eftir hrun Kaupþings, Glitnis og Landsbanka haustið 2008 endurreisti íslenska ríkið þrjá nýja banka á grunni hinna föllnu. Upphaflega stóð til að leggja þeim til samtals 385 milljarða króna í nýtt hlutafé. Þegar leið á endurskipulagningu nýju bankanna þriggja, sem þá höfðu fengið nöfnin Arion banki, Íslandsbanki og Landsbanki, breyttust áherslur og kröfuhafar samþykktu að taka yfir stóran eignarhluta í Arion banka og Íslandsbanka.

Kröfuhafar Landsbankans voru ekki jafn viljugir til að taka yfir bankann enda staða þeirra mun verri en hinna vegna þess að endurheimtur þrotabús hans munu líkast til í mesta lagi duga fyrir forgangskröfum. Þar sem neyðarlögin gerðu innstæður að forgangskröfum fara þær endurheimtur nær allar í endurgreiðslur vegna Icesavereikninganna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.