BMV Holding, félag í eigu sjö innlendra og erlendra aðila, hefur fengið græna ljósið hjá Samkeppniseftirlitinu til að kaupa BM Vallá af Eignarbjargi, dótturfélagi Arion banka. Tilkynnt var um söluna í október í fyrra og var beðið samþykkis eftirlitsins.

Að BMV Holdin koma Norcem á Íslandi en það er hluti af Heidelberg-samstæðunni, einum stærsta sementsframleiðanda í heimi. Björgun, Jarðefnaiðnaður, félagið Suðurhraun ehf.,  Hlér ehf., Harðbakur ehf. og Suðurverk. Harðbakur, Jarðefnaiðnaður og Suðurverk keyptu Björgun af Landsbankanum um mitt síðasta árs.

BM Vallá var lýst gjaldþrota í maí árið 2010 og tóku Arion banki og Landsbankinn þær eignir sem þeir áttu veð í og félaginu skipt upp á milli helstu kröfuhafa. Arion banki átti veð í steypustarfsemi fyrirtækisins. Sá hluti rekstrarins var svo auglýstur til sölu í mars í fyrra. Fyrirtækið framleiðir og selur steinsteypu, forsteyptar einingar, hellur, múrefni og vikur.

Í tilkynningu frá Arion banka um viðskiptin er ekkert gefið uppi um kaupverðið.

Áttu eignir upp á tæpa 1,6 milljarða

Samkvæmt þeim ársreikningi sem hefur verið birtur nam velta fyrirtækisins tæpum 1,3 milljörðum króna árið 2010. Framlegð var 784 milljónum króna en hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði 85 milljónum króna. Hagnaður ársins 2010 nam rúmum 45,5 milljónum króna.

Félagið átti á þessum tíma fastafjármuni upp á 832 milljónir króna og námu veltufjármunir 734 milljónum. Eignir voru þessu samkvæmt upp á tæpa 1,6 milljarða króna. Á móti námu heildarskuldir 1,1 milljarði króna. Þar af voru langtímaskuldir rétt rúmar 840 milljónir. Eiginfjárhlutfall BM Vallár nam í lok árs 2010 29%