Eignir vogunarsjóða lækkuðu að meðaltali um 4,1 prósent í ágúst samkvæmt mati rannsóknarstofnunar sem fylgist með gengi sjóðanna og sagt er frá á vef Financial Times. Er frammistaða sjóðanna í ágúst sú fjórða versta í sögunni og hafa þeir þurft að innleysa tap upp á milljarða dollara. Síðast töpuðu sjóðirnir álíka upphæðum þegar Lehman Brothers féllu í september 2008.

Mestu skiptir hrun á verðbréfamörkuðum sem virðist hafa komið stjórnendum vogunarsjóða í opna skjöldu. Eignasöfnin féllu í verði og neyddu sjóðina til að losa um stöður sínar og raungera þar með tapið.

Meðal þeirra sjóða sem töpuðu miklu er Paulson & Co sem höfðu hagnast mikið á því að veðja gegn undirmálslánunum árið 2007. Einnig töpuðu sjóðir sem veðja á tiltekna atburði eins og yfirtökur, skráningar og gjaldþrot fyrirtækja.