Verðmat eigna Glitnis banka hækkaði úr 808 milljörðum króna í upphafi árs 2010 í 814 milljarða í árslok 2010, eða um 1%.  Verðmat eigna Glitnis í evrum hækkaði aftur á móti um 18%, eða úr 4.493 milljónir evra í 5.295 milljónir evra.  Styrking krónunnar á árinu 2010 skýrir þessar mismunandi niðurstöður á mati eigna eftir myntum.

Þetta kemur fram fram í tilkynningu um uppgjör Glitnis.

„Verðmat eigna í íslenskum krónum talið hækkaði um 88 milljarða á árinu 2010, en neikvæð áhrif gengis og aðrar  breytingar unnu gegn hækkun á eignamati  og nam sú lækkun alls um  82 milljörðum króna.

Heildarrekstrarkostnaður Glitnis banka á árinu 2010 var 4.570 milljónir króna sem er 0,24% af nafnvirði heildareigna í árslok, sem námu fyrir niðurfærslu eigna og skuldajöfnun um 1.874 milljörðum króna.  Stærstur hluti rekstrarkostnaðar er til kominn vegna aðkeyptrar sérfræðiráðgjafar sem nam 3.074 milljónum króna.  Þar af nemur kostnaður vegna erlendrar sérfræðiráðgjafar 2.484 milljónum króna.

Handbært fé Glitnis banka í árslok 2010 nam 259 milljörðum króna og hækkaði um 128 milljarða á árinu, þrátt fyrir 18 milljarða króna neikvæð áhrif vegna styrkingar á gengi íslensku krónunnar.

Slitastjórn Glitnis hefur ekki lokið við að taka afstöðu til allra krafna sem lýst var fyrir kröfulýsingafrest sem lauk þann 26. nóvember 2009, en í desember 2010 hafði slitastjórn kynnt afstöðu til um 75% krafna.  Næsti opni kröfuhafafundur þar sem afstaða slitastjórnar verður kynnt verður haldinn þann 14. apríl 2011,“ segir í tilkynningu.

Fjárhagsupplýsingar Glitnis í heild fyrir árið 2010 eru birtar á opna vef bankans; www.glitnirbank.com .