Fasteignasalan Eignamiðlun ehf. á Grensásvegi hagnaðist um 76 milljónir króna í fyrra samanborið við 118 milljónir á rekstrarárinu 2016. Rekstrartekjur félagsins námu 395 milljónum króna í fyrra en 456 milljónum árið á undan. Rekstrargjöld námu 301 milljón króna á rekstrarárinu 2017 samanborið við 318 árið 2016. Hvað lækkun rekstrarkostnaðar snertir þá munar mestu um að laun og launatengd gjöld fóru úr 231 milljón í 203 milljónir á milli ára.

Eignir Eignamiðlunar eru metnar á 118 milljónir og eigið fé var 76 milljónir um áramótin síðustu samanborið við 125 milljónir árið á undan. Skuldir félagsins lækkuðu úr 62 milljónum árið 2016 í 42 milljónir í fyrra. Í ársreikningi segir að greiddur verði 71 milljóna króna arður til hluthafa á þessu ári.

Hluthafar Eignamiðlunar eru fjórir og eiga þeir á bilinu 24,3% til 25,1% hlut hver. Um áramótin voru 16 stöðugildi hjá Eignamiðlun. Kjartan Hallgeirsson er framkvæmdastjóri Eignamiðlunar.