Fasteignasalan Eignamiðlun hefur nú stækkað með innkomu Einars Páls Kjærnested í eigendahópinn. Samkvæmt upplýsingum frá Eignamiðlun er markmið sameiningarinnar gagnkvæm styrking fasteignamarkaðsins á höfuðborgarsvæðinu og hagræðing í gegnum samlegðaráhrif.

Það mun skila sér í auknu úrvali fasteigna og betri þjónustu. Fasteignasala Mosfellsbæjar, sem Einar Páll hefur rekið um árabil, verður jafnframt hluti Eignamiðlunar og söluskrárnar verða sameinaðar. Framkvæmdastjóri Eignamiðlunar er Sverrir Kristinsson og mun hann gegna því starfi áfram en Einar Páll Kjærnested verður stjórnarformaður fyrirtækisins. Með þessu verða starfsmenn Eignamiðlunar 20 talsins en þar af eru tíu löggiltir fasteignasalar og sex þeirra eru eigendur Eignamiðlunar.

Með sameiningunni er verið að horfa til framtíðarþróunar í fasteignaviðskiptum. Vönduð vinnubrögð og mikil þekking skipta viðskiptavini öllu máli. Til að mæta auknum kröfum um úrvals þjónustu þurfa fasteignasölur að stækka og hafa yfir að ráða sérfræðiþekkingu á fjölmörgum sviðum. Eignamiðlun spáir því að svipuð þróun muni eiga sér stað í fasteignasölu og verið hefur hjá lögmönnum og endurskoðendum, að fyrirtækin stækki um leið og þeim fækki.

„Fasteignasala hefur ávallt verið sveiflukennd hér á landi. Síðustu ár hefur mikill vöxtur verið í fasteignaviðskiptum, en að undanförnu hefur dregið hratt úr umsvifunum. Vissulega mættu sveiflurnar þó vera minni,“ Segir Sverrir Kristinsson, framkvæmdastjóri Eignamiðlunar. Sverrir segir jafnframt að tvö síðustu ár hafi verið mestu söluár á fasteignum sem menn muna, því voru menn viðbúnir einhverjum samdrætti.

Eignamiðlun er elsta starfandi fasteignasala landsins. Hún er stofnuð árið 1957 og fagnaði því fimmtugsafmæli í fyrra. Fasteignasala Mosfellsbæjar hefur verið starfrækt frá árinu 1998, en hún mun nú bera nafnið Eignamiðlun, Mosfellsbæ.