Stærsti eigandi 365 – miðla ehf, móðurfélags Stöðvar 2, Fréttablaðsins og Vísis, er lúxemborgíska félagið Moon Capital S.á.r.l., en það á 43,5% A-hluta í 365 og 99,99% B-hluta í félaginu. Kemur þetta fram í samantekt Fjölmiðlanefndar um eignarhald á fjölmiðlum. Næstu þrír eigendur 365 eru ML 102 ehf., með 25,8%, IP Studium ehf. með 12,5%, og Ingibjörg Pálmadóttir með 7,9% hlut.

ML 102, IP Studium og Ingibjörg Pálmadóttir eru svo sögð eigendur Moon Capital, en ekki kemur fram í hvaða hlutföllum þeir eignarhlutir skiptast á milli þeirra.

Þessar upplýsingar eru á skjön við það sem fram kom í tengslum við söluna á SMS verslanamiðstöðvunum í Færeyjum fyrr á árinu. Þá var fréttaflutningur allur á þá leið að Jóhannes Jónsson hefði selt 50% hlut í færeyska félaginu. Þessi sami 50% hlutur var í eigu Apogee ehf., sem aftur var í 100% eigu Moon Capital, eins og sagt var frá í Viðskiptablaðinu.

Ef gengið er út frá því sem réttu að Ingibjörg Pálmadóttir eigi beint eða óbeint allt hlutafé í Moon Capital þá verður ekki komist hjá þeirri ályktun að hún, en ekki Jóhannes, hafi selt bréfin í SMS á dögunum. Annar hugsanlegur möguleiki er að þau hafi skipst á eignarhaldi á Moon Capital á milli þess sem SMS var selt og upplýsingum var skilað til fjölmiðlanefndar.