Á sama tíma og íslenskir bankar hafa stækkað og aukið umsvif sín erlendis hefur eignarhald þeirra þrengst og eignarhlutdeild stærstu eigendanna aukist. Í dag nemur meðaltals eignarhlutur tveggja stærstu hluthafa bankanna fjögurra um 43%. Jafnframt eru stórir hluthafar oft viðskiptavinir viðkomandi banka eða samstarfsaðilar um fjárfestingar. Þetta kom fram í ræðu Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, á ársfundi eftirlitsins í dag.

Jónas sagði að stórir eignarhlutir eða viðskiptatengsl á milli eigenda og fjármálafyrirtækja þurfa ekki að vera óeðlileg en í því felast hins vegar tilteknar áhættur. "Þær áhættur snúa bæði að heilbrigði og trausti einstakra fjármálafyrirtækja en einnig að orðspori íslenska markaðarins í heild sinni," sagði Jónas.

Jónas taldi það hlutverk Fjármálaeftirlitsins að reyna að koma í veg fyrir skaðleg áhrif þröngs eignarhalds og gæta þess að ákveðnar meginreglur um jafnræði, hæfi og hagsmunaárekstra séu í heiðri hafðar. Mikilvægi þessa verði seint undirstrikað á þeim tíma þegar íslensku fyrirtækin og markaðurinn verða sífellt alþjóðlegri.

"Ég lít á þetta sem sameiginlegt verkefni Fjármálaeftirlitsins, fjármálafyrirtækjanna og stærstu eigenda þeirra. Fyrirtækin geta verið í fararbroddi hvað varðar góða stjórnarhætti og gagnsæja eftirfylgni við innri reglur. Eigendur geta unnið að þessu við skipun einstaklinga í stjórnir, með því að sjá til þess að viðskiptatengsl séu byggð
á armslengdarsjónarmiðum og með því að gera ríkar hæfiskröfur til sjálfra sín við töku einstakra ákvarðana," sagði forstjóri Fjármálaeftirlitsins í ræðu sinni.