Rætt hefur verið um að Orkuveita Reykjavíkur eigi minni hlut í samkeppnisþætti Hitaveitu Suðurnesja en stærri hlut í sérleyfisþætti þess, komi til þess að HS verði skipt upp eins og gert er ráð fyrir í orkufrumvarpi iðnaðarráðherra. Að sama skapi hefur komið til tals að Geysir Green Energy eigi stærri hlut í samkeppnisþætti HS en minni hlut í sérleyfisþættinum. Allt er þetta þó á umræðustigi enda orkufrumvarpið enn til meðferðar á Alþingi og óvíst hvenær það verður að lögum.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja, sem eru með meira en tvo milljarða í rekstrartekjur á ári, verði rekin í aðskildum fyrirtækjum. Þá er í frumvarpinu lagt til að sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja skuli vera í höndum aðila sem eru að minnsta kosti að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila. Með samkeppnisþætti er átt við framleiðslu og sölu en með sérleyfisþætti er átt við flutning og dreifingu. Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri OR, segir að þessar breytingar á eignasamsetningu í HS hafi komið til tals á sameiginlegum fundi fulltrúa eigenda HS á mánudag. Hann ítrekar að þetta sé enn bara á hugmynda- og umræðustigi en útilokar ekki umræddar breytingar.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy, útilokar þær ekki heldur. „Áhugi okkar liggur fyrst og fremst samkeppnismegin,“ segir hann. GGE hafi með öðrum orðum meiri áhuga á því að beita sér í framleiðslunni heldur en í dreifingunni enda geri frumvarpið ráð fyrir því að dreifiveiturnar verði í meirihlutaeigu opinberra aðila. GGE og OR eru meðal stærstu eigenda HS. GGE á 32% hlut í félaginu en OR um 16,5%. Reykjanesbær er þó stærsti hluthafinn með um 34,7% hlut. Hafnarfjarðarbær á um 15,4% og aðrir minna. Hafnarfjarðarbær hefur ákveðið að selja allt að 95% af sínum hlut og það til OR en óvissa ríkir um þau viðskipti vegna forúrskurðar Samkeppniseftirlitsins. Eftirlitið leggst gegn kaupunum á þeim forsendum að OR yrði þar með of stór aðili á samkeppnismarkaði.