Ef kröfuhafar gömlu bankanna sætta sig við að fá hlutafé í nýju bönkunum minnkar krafa á ríkissjóð vegna eiginfjáruppbyggingar þeirra og líklega myndi það lækka upphæð skuldabréfsins sem nýju bankarnir þurfa að gefa út til þess gamla. Að sögn Þorvalds Lúðvíks Sigurjónssonar, forstjóra Saga Capital, væri þetta mjög ásættanlegt miðað við stöðuna núna.

Þorvaldur segist þarna horfa til þess að þeir sætti sig við niðurfellingu krafna í gömlu búin gegn því að fá hlutafé í nýju bönkunum. ,,Áhrifin eru þau að við erum ekki að skilja erlenda kröfuhafa eftir með súrt bragð og við værum áfram að halda erlendum hagsmunum inni í landinu sem myndu líklega ekki vilja skaða eigin hagsmuni með því að fara gegn stofnunum sem þeir eiga hluta í. Þannig væru vinsamleg og traust bankaviðskipti milli landa betur tryggð.”

Þorvaldur benti á að einnig yrði að horfa til þess að lífeyrissjóðirnir á Íslandi eru í sömu stöðu og erlendu kröfuhafarnir og reyndar aðrir sem ættu skuldabréf á bankana.

-       Er hægt að endurreisa bankana og gera þá starfhæfa með þessu?

,,Já, ég hef trú á því, þetta myndi allavega hjálpa til við það. Sumir eru tilbúnir að skoða þann möguleika að fella niður skuldir og fá hlutafé í nýju bönkunum.”

Þorvaldur sagði erfitt að meta hvaða áhrif greiðslustöðvunarferli það sem bankarnir væri komnir í hefði. ,,Það er ljóst að meðan greiðslustöðvunarferlið varir er óljóst hvaða heimtur verða af búunum. Það er gott að geta stoppað við á meðan það er svona erfitt að selja eignir. Þetta er sjálfsagt versti tíminn til þess að selja eignir og það er hægt að auka virði búanna með þessu og þar með hámarka endurheimtur kröfuhafa.”