Aðkoma lífeyrissjóða að eignarhaldi fyrirtækja hefur vaxið hröðum skrefum á meðan eignarhald banka og skilanefnda á rekstrarfélögum hefur dregist saman. Samkeppniseftirlitið segir að minnkandi eignarhlutur banka í samkeppnisfyrirtækjum sé jákvæður en vaxandi eignarhlutur lífeyrissjóða, m.a. í gegnum framtakssjóði, kalli á umræðu um aðkomu þeirra að slíku eignarhaldi og með hvaða hætti nauðsynlegt sé að standa vörð um virka samkeppni við þær aðstæður.

Þetta segir Samkeppniseftirlitið í tilefni af því að Samkeppniseftirlitið gerði í dag opinberlega grein fyrir þeim skilyrðum sem sett voru fyrir kaupum Festar ehf. á eignum Norvíkur, þar með talið Kaupási sem rekur Krónuna og Nóatún. Festi ehf er meðal annars í eigu lífeyrissjóða, Arion banka og annarra fjárfesta, með rekstrarsamning við Stefni hf., dótturfélag Arion banka hf.

Að mati Samkeppniseftirlitsins er hætta á því að óskýrt eignarhald og takmarkað eigendaaðhald í atvinnufyrirtækjum geti leitt til röskunar á samkeppni. Samkeppniseftirlitið telur ljóst í þessu samhengi að umsvif lífeyrissjóða í fjárfestingum í atvinnufyrirtækjum komi til með að hafa afgerandi áhrif á þróun samkeppnismarkaða á næstu árum.